Fjöruferðir

Íris Gunnarsdóttir • 12. september 2025

Ævintýraleg fjöruferð - "Flæði" og fjara

Glatt var á hjalla þegar tveir elstu árgangar leikskólans ásamt nemendum úr 1. og 2. bekk lögðu af stað í spennandi fjöruferð að Stokkseyrarfjöru á dögunum. Börnin voru full tilhlökkunar þegar þau stigu út úr rútunni og fundu ferska sjávarloftið streyma um andlit sín. Veðrið var með eindæmum gott og var haft orð á því að ferðin minnti helst á strandarferð á suðrænum slóðum frekar en íslenskan pollagallaviðburð.


Undir handleiðslu kennara og starfsfólks dreifðu nemendurnir sér um fjöruna og hófu spennandi leit að fjársjóðum náttúrunnar. Börnin fengu frjálsar hendur með að sulla, veiða smádýr í háfa, leika sér í sandinum eða elta önnur viðfangsefni sem heilluðu þau í fjörunni.

Ekki leið á löngu þar til fyrstu uppgötvanirnar voru gerðar. "Ég fann krabba!" hljómaði gleðihróp frá einum nemandanum, sem vakti mikla athygli hjá félögunum sem þustu að til að skoða fundinn.

Fjaran reyndist sannkallað náttúrulegt kennslurými þar sem börnin fundu fjölbreytt sjávardýr og skeljar. Kuðungar í öllum stærðum og gerðum vöktu sérstaka athygli og urðu tilefni til fróðlegra umræðna um lífríki sjávar. Kennararnir nýttu tækifærið vel og tengdu uppgötvanirnar við námsefnið, sem gerði upplifunina bæði skemmtilega og lærdómsríka.

Börnin söfnuðu í fötur sínar ýmsum náttúrugersemum sem þau fundu í fjörunni. Marglitir steinar, skrautlegir kuðungar og áhugaverðar skeljar rötuðu í söfnin þeirra. Sérstaka lukku vakti þegar hópurinn fann lifandi krabba sem var varlega skoðaður áður en honum var sleppt aftur út í sjó.

Bæði stórir sem smáir gleymdu stund og stað og duttu í algert flæði í flæðarmálinu, svo mjög að fólk trúði því ekki þegar tíminn var hlaupinn frá okkur og við þurftum að fara að halda aftur heim á leið. Nestið, sem hafði alveg gleymst, var gleypt með hraði og rútan hlaðin af fötum fullum af kröbbum, skeljum og öðrum fjörufjarsjóð sem rannsaka skyldi betur heima.


Að ferð lokinni voru börnin sammála um að þetta hefði verið einstaklega skemmtileg og fræðandi upplifun. Kennararnir sáu strax tækifæri til að vinna áfram með efnivið og upplifanir dagsins í kennslustofunni, þar sem börnin gætu unnið verkefni tengd fjörunni og lífríki sjávar.


Takk fyrir fjörið fjara!

Gleðidagur í fjörunni - Náttúrustígur og sandkastalakeppni hjá 3.-10. bekk

Nemendur í 3.-10. bekk áttu eftirminnilega útinámsferð í fjörunni um daginn þegar þeir tóku þátt í fjölbreyttri náttúruskoðun og spennandi sandkastalakeppni. Veðrið lék við okkur með sól og blíðu sem gerði daginn enn ánægjulegri.


Nemendum var skipt í aldursblandaða hópa; Hrúðurkarlar, Bóluþang, Landselir, Dílaskarfar, Hörpuskeljar og Marflær; og fengu sérstök "fjöruvegabréf" til að safna stimplum á sex mismunandi stöðvum meðfram náttúrustígnum í fjörunni.

Á fyrstu stöðinni framkvæmdu nemendur ýmsar mælingar, þar á meðal sýrustig sjávar, önnur stöð var tileinkuð smádýralífi, á þriðju stöðinni söfnuðu nemendur kuðungum og skeljum og lærðu að greina ólíkar tegundir. Fuglaskoðun var í fyrirrúmi á fjórðu stöðinni þar sem nemendur fylgdust með fjörufuglum í gegnum sjónauka og skráðu niður tegundirnar sem þeir sáu. Fimmta stöðin fól í sér að kanna aðskotahluti í fjörunni og ræða um umhverfisvernd, en á þeirri síðustu rannsökuðu nemendur plöntur og fléttur sem þrífast í fjörunni.

Að því loknu settust allir niður í sólinni og gæddu sér á nesti.


Í lokin var haldin spennandi sandkastalakeppni þar sem hóparnir sýndu ótrúlega hugmyndaauðgi og samvinnu. Veitt var viðurkenning fyrir flottasta kastalann og svo frumlegustu hugmyndina.

Þetta var einstaklega vel heppnaður dagur þar sem við tengdum saman útikennslu, náttúrufræði og félagsfærni. Það var sérlega ánægjulegt að sjá eldri nemendur leiðbeina þeim yngri og einnig hversu margir gleymdu sér í "fjársjóðsleit" í rannsóknum á lífríkinu.

Eftir Íris Gunnarsdóttir 24. september 2025
Öll sem eitt
Eftir Íris Gunnarsdóttir 16. september 2025
Aðalfundur foreldrafélagsins og opinn skólaráðsfundur
Eftir Íris Gunnarsdóttir 10. júní 2025
Skráningardagar
Eftir Íris Gunnarsdóttir 27. maí 2025
Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG)
Eftir Íris Gunnarsdóttir 16. maí 2025
Stóra upplestrarkeppnin í skólum Árnesþings
Eftir Íris Gunnarsdóttir 8. maí 2025
Stóra upplestrarhátíðin
Eftir Íris Gunnarsdóttir 8. maí 2025
Skólahreystislið Bláskógaskóla og Kerhólsskóla
Eftir Íris Gunnarsdóttir 30. apríl 2025
Fulltrúar Kerhólsskóla
Eftir Íris Gunnarsdóttir 26. mars 2025
Fjáröflun fyrir unglingastig Kerhólsskóla
Eftir Íris Gunnarsdóttir 4. mars 2025
Ný heimasíða í loftið
Sýna meira