Vináttuverkefni
Vinátta (Fri for mobberi )
Vináttuverkefni Barnaheilla er forvarnarverkefni gegn einelti og er unnið að því að fyrirbyggja einelti með því að móta góðan skólabrag, eiga góð samskipti og hafa jákvæð viðhorf til allra í hópnum. Efnið er gefið út í samstarfi við Red barnet – Save the Children og Mary Fonden í Danmörku. Lögð er áhersla á að allir taki þátt; börn, foreldrar og starfsfólk til að vel til takist og að hægt er að ná til þeirra sem verða vitni af einelti án þess að bregðast við því.
Efnið vinnur með fjögur gildi að leiðarljósi sem eru samofin í allt starf leikskólans:
Umburðarlyndi; viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og að koma fram við alla aðra af virðingu.
Virðing; viðurkenna og taka tillit til allra barnanna í hópnum, að vera öllum góður félagi og að virða mismunandi hátterni annarra.
Umhyggja; sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi. Að hafa skilning á stöðu annarra.
Hugrekki; að þora að láta til sín heyra og geta sett sér mörk. Að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti.