top of page

Stoðþjónusta Kerhólsskóla

Einstaklingurinn í fyrirrúmi

Í skólanum er einstaklingurinn í fyrirrúmi. Hver einstaklingur skiptir miklu máli og það er reynt að koma til móts við þarfir allra eins og kostur er. Það gerum við með því að vera með einstaklingsmiðað nám. Samkvæmt Aðalnámskrám eiga öll börn rétt á kennslu við hæfi í sínum heimaskóla.

 

Samkvæmt 40. gr. grunnskólalaga þar sem fjallað er um sérfræðiþjónustu stendur:

 

Sveitarfélög skulu tryggja að sérfræðiþjónusta sé veitt í grunnskólum, ákveða fyrirkomulag hennar og stuðla að því að hún fari fram innan grunnskóla. Í sérfræðiþjónustu felst annars vegar stuðningur við nemendur og fjölskyldur þeirra og hins vegar stuðningur við starfsemi grunnskóla og starfsfólk þeirra.

 

 

Sérkennsla

Við Kerhólsskóla starfa þær Ragnheiður Jónsdóttir og Brynja Dís Björnsdóttir við sérkennslu grunnskóladeildar. Þær fara með verkefnaumsjón með sérkennslunni og skipuleggja hana. Þær halda utan um öll trúnaðargögn varðandi sérkennslunemendur. Þegar grunur vaknar um að nemendur þurfi á sértækum aðgerðum að halda vegna námserfiðleika, byrjar sérkennari að skoða málið í samvinnu með umsjónarkennara. Leggja þær t.d. fyrir ákveðnar kannanir til að greina vandann eða vísar málinu áfram til frekari greiningar ef ástæða þykir til.

 

Sérkennari aðstoðar umsjónarkennara grunnskóladeildar og kennara leikskóladeildar varðandi tilvísanir til Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings og sér um að koma þeim á réttan stað. Tilvísanir eru ávallt gerðar í fullu samráði við foreldra. Sérkennari sér jafnframt um önnur samskipti við sérfræðinga utan skólans ásamt skólastjóra. Sérkennarar sjá um nær alla sérkennslu skólans, þar með talda íslenskukennslu fyrir nýbúa. Að vori meta sérkennarar ásamt skólastjórnendum og kennurum þörfina fyrir sérkennslu næsta skólaárs. Áherslur í sérkennslunni geta verið breytilegar á sjálfu skólaárinu en þær miðast fyrst og síðast við þarfir nemenda skólans. Allar breytingar eru unnar í samráði við umsjónarkennara. Foreldrar þurfa að gefa samþykki fyrir því að nemandi fái sérkennslu. Ragnheiður heldur utan um flest alla teymisfundi en gengið er frá beiðnum í samráði við stjórnendur.

Leikskóladeild

Emilía sinnir sérkennslu á leikskóladeild. Við nálgumst sérkennsluna í gegnum leikinn og með hugmyndafræði skóla án aðgreiningar að leiðarljósi. Skóli án aðgreiningar byggir á Salamanca- yfirlýsingunni sem vísar í lýðræðis- og mannúðleg sjónarmið; gengið er út frá því að margbreytileiki mannkyns sé eðlilegur og áhersla lögð á að fólki sé ekki mismunað.

 

Við notum ýmsa skimunarlista til að kanna og fylgja eftir stöðu nemenda. Þar má helst nefna TRAS, EFI-2 málþroskaskimun 3-4 ára, HLJÓM-2 fyrir 5 ára börn og íslenska málhljóðamælinn. Með því getum við brugðist við með snemmtækri íhlutun ef þurfa þykir. Einnig leggjum við mikla áherslu á félagsfærni.

 

Sérkennslan gengur í meginatriðum út á það að stuðningur við börn fari fram í nemendahópnum með jafnöldrum sínum og kennara. Í vetur leggjum við sérstaka áherslu á eflingu orðaforða og erum að vinna ýmis verkefni tengd því.

 

 

Skóla - og velferðarþjónusta Árnesþings

Haustið 2013 var ákveðið að hefja samvinnu sveitarfélaganna Bláskógabyggðar, Flóahrepps, Grímsnes- og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps, Hveragerðisbæjar, Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Sveitarfélagsins Ölfuss. Skólaþjónustan starfar á grundvelli reglugerðar nr. 584/2010 um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga.

 

Starfsfólk Kerhólsskóla leitar sér sérfræðiaðstoðar hjá Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings. Þeir sérfræðingar sem skólinn hefur aðgang að eru: félagsmálastjóri, teymisstjóri og kennsluráðgjafar, talmeinafræðingur, sálfræðingur, náms- og starfsráðgjafi.

 

Kennsluráðgjafi

 • Veitir ráðgjöf til foreldra og skóla.

 • Leiðbeinir kennurum sem eiga í vanda með ákveðna þætti í starfinu, s.s. með tengslakönnunum, veru í kennslustund og/eða val á viðfangsefnum og kennsluaðferðum.

Sálfræðingur

 • Sálfræðingur Skóla- og velferðarþjónustunnar er fyrst og fremst greinandi. Hann gerir t.d. þroskapróf og ýmsar athuganir s.s. athyglisbrest. Þá veitir hann ráðgjöf í skóla og til heimila. Ef þörf er á meðferð eða frekari greiningu vísar sálfræðingur nemandanum áfram til meðferðarsálfræðings, Greiningar- og ráðgjafastöðva ríkisins eða Barna- og unglingageðdeildar Landspítala.

Talmeinafræðingur

 • Greinir málþroska og talfærni nemenda. Veitir ráðgjöf til heimilis og skóla.

 

 

Félagsþjónusta 

Markmið með félagslegri aðstoð er að koma einstaklingum og fjölskyldum til aðstoðar í tímabundnum erfiðleikum. Markmið aðstoðarinnar til lengri tíma er alltaf að viðkomandi verði sjálfbjarga. Beitt er félagslegri ráðgjöf og tiltækum félagslegum úrræðum.

Þegar um fatlað fólk og fjölskyldur fatlaðra barna er að ræða er aðstoð oft til lengri tíma og markmið með þeirri þjónustu er að fatlaðir njóti sömu tækifæra og lífsgæða eins og aðrir.

Félagsleg ráðgjöf 

Þjónustan er í formi almennrar og sérhæfðrar ráðgjafar. Unnið er eftir lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, 

Markmið félagslegrar ráðgjafar er tvíþætt. Annars vegar að veita upplýsingar um félagsleg réttindamál og hins vegar að veita stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda.

Ráðgjöfin sem stendur til boða er:

 • Félagsleg ráðgjöf s.s. vegna uppeldis- og samskiptavanda, skilnaðar, forsjár- og umgengnismála.

 • Ráðgjöf vegna fjármála

 • Ráðgjöf vegna húsnæðismála og/eða þjónustu í búsetu

 • Ráðgjöf er tengist atvinnu og endurhæfingu

 • Sérhæð ráðgjöf /þjónusta vegna fatlaðra barna

Náms- og starfsráðgjafi

Hlutverk náms- og starfsráðgjafa er að standa vörð um velferð allra nemenda. Hann er trúnaðarmaður og talmaður nemenda og er bundinn þagnarskyldu um einkamál þeirra. Hann býður upp á fræðslu í stærri og smærri hópum sem vinna að einstökum verkefnum, til dæmis vegna náms- og starfsvals, námstækni, sjálfstyrkingu og samskiptavanda. Slík vinna er ávallt í samráði við kennara. Nemendur, kennarar og foreldrar geta ávallt leitað til námsráðgjafa.

 

Helstu verkefni náms- og starfsráðgjafa er að:

 • Sinna fyrirbyggjandi starfi með fræðslu

 • Vinna að bættum samskiptum innan skólans

 • Stuðla að betri námstækni nemenda

 • Veita nemendum persónulega ráðgjöf þannig að þeir eigi auðveldara með að ná settum markmiðum í námi sínu

 • Undirbúa nemendur undir flutning milli skóla og skólastiga

 • Aðstoða nýja nemendur við að aðlagast skólanum

 • Veita fræðslu um náms- og starfsval og upplýsingar um skólakerfi og atvinnulíf

 • Aðstoða nemendur við að gera raunhæfar áætlanir með tilliti til áhugasviða hvers og eins.

Einstaklingr í yrirrúmi
Sérkennsla
Skóla- og velferðarþj. Árnsþ.
Félagsþjónsta
Náms- og stafsráðgjöf
Félagslegráðgjöf
bottom of page