top of page

Flæði

Mihaly Csikszentmihalyi setti fram hugmyndafræði um „flæði“ og bjó hugtakið til. Mihaly er ungverskur sálfræðiprófessor en hann lærði í Bandaríkjunum. Kenningar hans eru flokkaðar sem samskiptakenningar og er hann sérfræðingur í sköpunargleði, hamingju og jákvæðri sálfræði.

Samkvæmt kenningum Mihaly er flæði þær stundir þegar við njótum okkar best. Einstaklingurinn er svo niðursokkinn í athöfn að ekkert annað kemst að, verkefnið á hug hans allan og hann gleymir jafnvel stund og stað. Hlutirnir virðast gerast án áreynslu og hæfileikar hans eru fullnýttir. Reynslan sem einstaklingurinn öðlast í þessu ferli er svo gefandi að hann leggur töluvert á sig til að upplifa hana aftur. Hægt er að skapa aðstæður eða ástand þar sem líklegra er að einstaklingur geti upplifað flæði, en þá má verkefnið sem hann tekur sér fyrir hendur hvorki vera of létt né of erfitt. Þannig viðheldur það áhuga hans.

Í starfsumhverfinu okkar verður lögð áhersla á að hafa sveigjanleika í skipulaginu þar sem börnin hafa val um það sem þau gera hverju sinni án mikilla tímatakmarkanna. Með því skapast tækifæri fyrir börnin að efla sitt áhugasvið. Við þær aðstæður komast börnin í flæði.

 Einnig er sjálfræði barna mikilvægt þar sem börnin fá að taka þátt í ákvörðunum um það sem þau fást við í leikskólanum, t.d. að velja leiksvæði, leikefni og leikfélaga.

Leikur er lífstjáning og gleðigjafi barns. Leikur endurspeglar reynsluheim barnsins og þá menningu og samfélag sem það býr í. Barn lifir sig inn í atburði sem gerast í kringum það og í leik rifjar barnið upp það sem það hefur séð, heyrt og upplifað og lætur ímyndunaraflið ráða ferðinni. Ýmsir aðrir þættir en fyrri reynsla geta haft áhrif á leik barnsins. Skiptir miklu máli hvaða viðhorf kennarar hafa til leiksins, hvernig samsetning barnahópsins er og tengsl innan hans. Leikskilyrði inni sem úti skipta máli og hvaða leikefni er í boði. Leikur er mjög mikilvæg námsleið innan leikskóla.  

Leikurinn er ekki einungis gleðigjafi fyrir barnið heldur líka náms- og þroskaleið. Leikurinn hjálpar barninu að rannsaka umhverfi sitt, tjá tilfinningar og leysa vandamál sem gerir það að verkum að barnið þroskast og styrkir persónuleika sinn. 

Það er auðvelt fyrir barnið að læra í gegnum leik. Þar getur það prófað sig áfram án þess að mistakast, allt er leyfilegt í leiknum því barnið ræður ferðinni. Leikur barnsins segir okkur mikið um hvað það lærir, hvernig það þroskast og hversu vel því gengur í samskiptum við aðra í ólíkum aðstæðum. Leikur mótast af þroska barnsins bakgrunni þess og uppeldisumhverfi.

Þegar börn leika sér gera þau það innan ákveðins ramma, þessi rammi skilur leikinn frá raunveruleikanum.  Þegar barnið er inni í rammanum eru það reglur leiksins sem gilda en ekki reglur raunveruleikans. Barnið getur dottið djúpt inn í leik, gleymt stund og stað (flæði) svipað og við fullorðna fólkið gerum í mikilvægum samræðum eða þegar við lesum bók. Að gleyma stund og stað (fæði) er innra ástand barnsins þar sem barnið er að leika það sem það hefur áhuga á og er mjög einbeitt í leik sínum. Mikilvægt er að trufla ekki börnin þegar þau eru einbeitt í leik sínum þar sem einbeiting í leik barna undirbýr þau í hæfni á einbeitingu seinna meir í lífinu.

Við munum einnig horfa til kenningar Vygotsky en hann var sovéskur og hann taldi að félagsleg samskipti og menningarleg áhrif væru grunnurinn að vitsmunalegri þróun ásamt að vera sterkari líffræðilegum tilhneigingum. Hann taldi að börn lærðu meningu sína, viðhorf og skilning við að leysa vandamál frá þeim sem eru eldri og reyndari. Börn og fullorðnir smíði í sameiningu þroskann með virkri þátttöku og reynslu. Þátttaka hins fullorðna er því mikilvæg í leik þar sem barnið lærir af þeim eldri en einnig geta yngri börn lært af þeim eldri.

Vygotsky notaði hugtakið „ Zone of Proximal Development “ svæði mögulegs þroska til að útskýra leik og hversu mikilvægur hann væri. Þegar talað er um svæði mögulegs þroska er átt við það svæði sem er á milli getu barns þegar það leysir sjálft verkefni og þegar barnið fær aðstoð frá kennara við að leysa verkefni. Vegna þess að  þegar barnið leikur sér þá hafi leikurinn það í sér að barnið togist alltaf upp á næsta þroskastig. Barnið sé alltaf hærra í þroska þegar það leikur sér en undir venjulegum kringumstæðum vegna þess að í leik geta þau prófað sig áfram og breytt hlutunum að vild. Vygotsky taldi að þykjustu og hlutverkja leikur væri barninu mikilvægastur þar sem þau læra í honum óhlutbundna hugsun, leikurinn geri börnin meðvituð um þær félagslegu reglur sem ríkja í umhverfinu og að í leiknum felist mikil sjálfsstjórn.

Áhersla verður lögð á jákvæðan aga í uppeldi með skýrum skilaboðum, ákveðnum mörkum, virkri hlustun og mikilvægi fyrirmynda. Þessi aðferð getur komið í veg fyrir hegðunarerfiðleika og hjálpar börnum að þróa með sér öryggi ásamt því að kenna þeim leiðir til að róa sig sjálf og efla eigið sjálfstæði og jákvæðni. Hegðun er ekki meðfædd heldur lærist hún. Því er áhersla lögð á að veita jákvæðri hegðun athygli og hunsa þá neikvæðu. Sem dæmi má nefna að notast er við setningar eins og við göngum inni í stað þess að segja ekki hlaupa inni. Ef barn missir stjórn á skapi sínu getur þurft að taka það úr aðstæðum. Með því er verið að hunsa neikvæða hegðun barnsins en ekki barnið sjálft. Þannig gefst barninu tækifæri til að jafna sig, barninu sjálfu er hlíft og öðrum börnum.

bottom of page