Heimasíða Grímsnes- og Grafningshrepps

Viðburðir

febrúar 2018
Sunnudagur Mánudagur Þriðjudagur Miðvikudagur Fimmtudagur Föstudagur Laugardagur
28. janúar 2018 29. janúar 2018 30. janúar 2018 31. janúar 2018 1. febrúar 2018 2. febrúar 2018 3. febrúar 2018
4. febrúar 2018 5. febrúar 2018 6. febrúar 2018 7. febrúar 2018 8. febrúar 2018 9. febrúar 2018 10. febrúar 2018
11. febrúar 2018 12. febrúar 2018 13. febrúar 2018 14. febrúar 2018 15. febrúar 2018 16. febrúar 2018 17. febrúar 2018
18. febrúar 2018 19. febrúar 2018 20. febrúar 2018 21. febrúar 2018 22. febrúar 2018 23. febrúar 2018 24. febrúar 2018
25. febrúar 2018 26. febrúar 2018 27. febrúar 2018 28. febrúar 2018 1. mars 2018 2. mars 2018 3. mars 2018

Stoðþjónusta

Hér má finna efni tengt:
Sérkennslu, heilsugæslu, félagsráðgjöf og Skólaskrifstofu Suðurlands

Einstaklingurinn í fyrirrúmi

Í grunnskólanum er einstaklingurinn í fyrirrúmi. Hver einstaklingur skiptir miklu máli og það er reynt að koma til móts við þarfir allra eins og kostur er. Það gerum við með því að vera með einstaklingsmiðað nám. Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla eiga öll börn rétt á kennslu við hæfi í sínum heimaskóla.

Í 37. gr. grunnskólalaga stendur:

,,Börn og unglingar, sem eiga erfitt uppdráttar með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar sbr. 2. gr. laga nr. 59/1992, eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi.“

Samkvæmt 40. gr. grunnskólalaga þar sem fjallað er um sérfræðiþjónustu stendur:

,,Sveitarfélög skulu tryggja að sérfræðiþjónusta sé veitt í grunnskólum, ákveða fyrirkomulag hennar og stuðla að því að hún fari fram innan grunnskóla. Í sérfræðiþjónustu felst annars vegar stuðningur við nemendur og fjölskyldur þeirra og hins vegar stuðningur við starfsemi grunnskóla og starfsfólk þeirra.”

Sérkennsla

Við skólann starfar sérkennari sem hefur jafnframt verkefnaumsjón með sérkennslunni og skipuleggur hana. Hann heldur utan um öll trúnaðargögn varðandi sérkennslunemendur. Þegar grunur vaknar um að nemendur þurfi á sértækum aðgerðum að halda vegna námserfiðleika, byrjar sérkennari að kanna málið. Hann leggur t.d. fyrir ákveðnar kannanir til að greina vandann eða vísar málinu áfram til frekari greiningar ef ástæða þykir til. Sérkennari aðstoðar umsjónarkennara varðandi tilvísanir til Skólaskrifstofu Suðurlands og sér um að koma þeim á réttan stað. Tilvísanir eru ávallt gerðar í fullu samráði við foreldra. Sérkennari sér jafnframt um önnur samskipti við sérfræðinga utan skólans ásamt skólastjóra. Verkefnisstjóri sérkennslu sér um nær alla sérkennslu skólans, þar með talda íslenskukennslu fyrir nýbúa. Túlkur skólans sér hins vegar um móðurmálskennslu fyrir nýbúa. Að vori metur sérkennarinn ásamt skólastjóra og umsjónarkennurum þörfina fyrir sérkennslu næsta skólaárs. Áherslur í sékennslunni geta verið breytilegar á sjálfu skólaárinu og allar breytingar eru unnar í samráði við umsjónarkennara.

 Heilsugæsla

Heilsugæsla Grunnskólans Ljósuborgar heyrir undir Heilsugæslustöðina í Laugarási og sinnir Kristín Albertsdóttir hjúkrunarfræðingur henni. Hjúkrunarfræðingur kemur annað slagið í skólann.

Meginmarkmið skólaheilsugæslu er að stuðla að því að börn fái að vaxa, þroskast og stunda nám sitt við bestu andlegu, líkamlegu og félagslegu skilyrði sem völ er á.

Heilsugæsla skólabarna er framhald af ung- og smábarnavernd. Skólaheilsugæslan leitast við að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra.

Starfsfólk skólaheilsugæslu vinnur í náinni samvinnu við foreldra/forráðamenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda.

Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál.

Reglubundnar skoðanir og bólusetningar:

1. bekkur Sjónpróf, heyrnarpróf, hæðarmæling og þyngdarmæling.

4. bekkur Sjónpróf, hæðarmæling og þyngdarmæling.

7. bekkur Sjónpróf, hæðarmæling, þyngdarmæling og athugun á litskyni.

Bólusett gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt (ein sprauta).

Árlega fer fram skólaskoðun á nemendum skólans og er hún boðuð með bréfi eða tilkynnt með fyrirvara. Læknisskoðun er í 1. og 7. bekk og sér Gylfi Haraldsson læknir um þær í vetur. Nemendur í öðrum árgöngum eru skoðaðir ef ástæða þykir til.

Skólaheilsugæsla fylgist með því að börn hafi fengið þær bólusetningar sem tilmæli landlæknis segja til um. Ef börn hafa ekki fengið fullnægjandi bólusetningar verður haft samband við foreldra áður en bætt verður úr því.

Ef foreldrar vilja fremur fara með börn sín í bólusetningu á Heilsugæslustöðina er sjálfsagt að verða við því.

Fræðsla / heilbrigðishvatning / forvarnir

Skólaheilsugæsla sinnir skipulagðri heilbrigðisfræðslu og hvetur til heilbrigðra lífshátta. Öll tækifæri sem gefast eru nýtt til að fræða nemendur og vekja þá til umhugsunar og ábyrgðar á eigin heilbrigði. Foreldrar geta leitað eftir ráðgjöf skólaheilsugæslunnar varðandi vellíðan, andlegt, líkamlegt og félagslegt heilbrigði barnsins.

Tannvernd

Flúorskolun fá nemendur í 1. og 7. bekk reglulega. Einnig er mælt með því að öll börn skoli með flúor heima til varnar tannskemmdum. Tannburstun með flúortannkremi tvisvar sinnum á dag er áhrifamikill þáttur í daglegri vörn gegn tannátu hjá öllum aldurshópum. Skólaheilsugæslan sinnir einnig skipulagðri fræðslu um varnir gegn tannskemmdum og um eigin ábyrgð á heilbrigðum tönnum.

Svefn, nesti og skjólfatnaður

Reglulegur og nægjanlegur svefn er mikilvægur fyrir heilsu og þroska barna. Börn þurfa að sofa 10-12 klst á nóttu. Skóladagur nemenda er langur, mikilvægt er að borða reglulega og hafa með sér hollt og gott nesti. Nægur svefn og góður morgunmatur er forsenda fyrir því að nemendum líði vel í skólanum og geti tekist á við verkefni dagsins. Einnig er nauðsynlegt að nemendur séu í góðum skjólfatnaði og með húfu og vettlinga.

Slys og veikindi

Veitt er fyrsta hjálp í skólanum og minniháttar slysum er sinnt. Þurfi nemandi að fara á heilsugæslustöð eða slysadeild skulu foreldrar/forráðamenn fara með barninu. Mikilvægt er að skólinn hafi öll símanúmer sem hægt er að ná í foreldra á skólatíma barnsins.

Ef barnið er með greindan alvarlegan sjúkdóm sem getur stefnt heilsu /lífi þess í bráða hættu er nauðsynlegt að skólaheilsugæsla viti af því. Hér er átt við sjúkdóma eins og t.d. sykursýki, ofnæmi, flogaveiki og blæðingarsjúkdóma.

Lyfjagjafir

Samkvæmt fyrirmælum Landlæknisembættisins eru sérstakar vinnureglur varðandi lyfjagjafir til nemenda á skólatíma. Þar kemur m.a. fram að skólabörn skulu ekki fá önnur lyf í skólanum en þau sem hafa verið ávísuð af lækni. Í engum tilfellum getur barn borið ábyrgð á lyfjatökunni, ábyrgðin er foreldra. Börn skulu ekki hafa nein lyf undir höndum í skólanum nema í algjörum undantekningartilvikum. Slíkar lyfjagjafir geta t.d. verið insúlíngjafir sem barnið sér sjálft alfarið um.

Foreldrar / forráðamenn þeirra barna sem þurfa að taka lyf á skólatíma skulu hafa samband við skólaheilsugæslu sem skipuleggur lyfjagjafir á skólatíma.

Lús

Lúsin kíkir alltaf reglulega í heimsókn yfir skólaárið og því mikilvægt að foreldrar kembi hár barna sinna reglulega.

Auk hefðbundinna verkefna er varða skólaskoðun og flúorskolun gefst nemendum tækifæri að fá einkaviðtöl hjá skólahjúkrunarfræðingi. Einnig hefur skólahjúkrunarfræðingur með ýmsa fræðslu að gera sem viðkemur hollustu og heilbrigði.

Félagsráðgjöf

 

Nanna Mjöll Atladóttir er félagsmálastjóri. Hún starfar við Heilsugæslustöðina í Laugarási og hefur viðveru þar alla virka daga. Síminn þar er 486 8800.

Skólaskrifstofa Suðurlands

Skólaskrifstofa Suðurlands veitir sérfræðiþjónustu á sviði sálfræði- og kennsluráðgjafar, auk margvíslegrar annarrar ráðgjafar til sveitarstjórna, skólastjórnenda og foreldra. Oftast er það verkefnisstjóri sérkennslu og kennarar í samráði við foreldra sem vísa nemendum til þeirra sem fara með þá þjónustu. Umsjónarmaður sérkennslu sér um að koma formlegum umsóknum til Skólaskrifstofu Suðurlands. Þá geta foreldrar leitað aðstoðar þangað að eigin frumkvæði.

Skólaskrifstofa Suðurlands er til húsa að Austurvegi 56 á Selfossi og er síminn 480 8240. Forstöðumaður hennar er Kristín Hreinsdóttir.

Skólasálfræðingur skólans er Alda Sigrún Magnúsdóttir og kennsluráðgjafi skólans er Elínborg Sigurðardóttir. Talmeinafræðingur er Hólmfríður Árnadóttir.