top of page

Vettvangsnám og vettvangsferðir 

Vettvangsferðir

Kerhólsskóli býr að því að vera afskaplega vel í sveit settur. Í næsta nágrenni hans eru nokkrar helstu náttúruperlur Íslands auk fjölmargra sögustaða. Atvinnulíf er af ýmsum toga og sömuleiðis orkuframleiðsla. Það er því hægur vandi að bregða sér af bæ eina dagstund eða svo og vitja liðins tíma eða komast í nánd við náttúruna og atvinnuhætti. 

 

Eitt af markmiðum Kerhólsskóla er að nemendur skólans læri í náttúrunni um náttúruna, kynnist sögunni á söguslóðum og samfélaginu sem virkir þátttakendur. Þannig læra þeir að meta þá auðlegð sem í samfélaginu og umhverfinu býr um leið og þeir tengjast því sterkari böndum. Flokka má ferðirnar í fjóra flokka;

 

  1. Ferðir innan skólalóðar eða á staði sem eru í hjóla eða göngufæri frá skólanum.

  2. Stuttar ferðir þar sem akstur er þó nauðsynlegur, dagspartur.

  3. Dagsferðir.

  4. Lengri ferðir þar sem dvalið er yfir nótt.

 

Vettvangsferðir nemenda í grunnskóladeild Kerhólsskóla

Vettvangsferðir leik- og grunnskóladeildar skólaárið 2018 - 2019

Eftirfarandi vettvangsferðir hafa verið farnar og eru fyrirhugaðar á þessu skólaári:

Á hverju hausti fer grunnskóladeildin og elsti hópur leikskóladeildar í réttir.

 

Útivist

Ferðir tengdar útivist eru hjá 8.-10. bekk.

Hvaða ferðir verða fyrir valinu getur verið mismunandi eftir áherslum og árstíma. Útivist getur einnig verið sem valáfangi í sömu árgöngum.

Heimsókn að Sólheimum

Samstarf við Sólheima heldur áfram í vetur, þar sem 7. bekkur fær að koma einu sinni í viku. Síðan fer allur skólinn í heimsókn á aðventunni, samkvæmt venju.

 

Jólatrésferð að Snæfoksstöðum

Sú hefð hefur skapast að yngstu nemendur grunnskóladeildarinnar og elstu nemendur leikskóladeildarinnar hafa í desember sótt jólatré fyrir Litlu-jólin að Snæfoksstöðum.

 

Hjólaferð

Á hverju vori er farið í hjólaferð um nágrenni skólans. Hjólað hefur verið að bænum Björk sem er í nokkurra kílómetra fjarlægð, þegið þar veitingar hjá Ingu sveitarstjóra og hjólað svo aftur heim, þar sem hjólaþrautabraut hefur beðið. Ekki er farin hjólaferð, fimmta hvert ár, þegar farið er í útilegu á Þingvelli.

Farið er í vorferðalag á hverju vori, ferðin er skipulögð útfrá skipuritinu hér að ofan.

Vorhátíð í Þrastarskógi

Farið er á vorhátíð í Þrastarskóg á hverju vori þar sem dvalið er dagpart við útivist og leiki. Foreldrafélagið sér um að grilla pylsur. Allir nemendur grunnskólans fara í þessa ferð og elstu nemendur í leikskóladeild.

Lambaferð

Leikskólanemendur fara heim á einhvern bæ í sveitinni og skoða lömbin á hverju vori.

Fjöruferð

Nemendur beggja deilda fara í fjöruferð að vori eða snemma hausts.

Þingvellir

Farið verður með 1.-10. bekk fimmta hvert ár í útilegu til Þingvalla. Þá ná nemendur að fara tvisvar sinnum á sinni skólagöngu.

Smiðjuhelgar

Sameiginlegar smiðjuhelgar verða haldnar þrisvar á árinu. Þá koma saman 8.-10. bekkur úr fjórum skólum, Kerhólsskóla, Bláskógarskóla Laugarvatni og Reykholti og Flóaskóla. Smiðjuhelgarnar eru haldnar til skiptis í skólunum.

bottom of page