K E R H Ó L S S K Ó L I
Kennsluhættir og tilhögun kennslu
Opnun leikskóladeildar og kennsluhættir grunnskóladeildar
Leikskóladeildin opnar alla morgna kl. 7:45 og er opin til kl. 16:15.
Kennsla í grunnskóladeildinni hefst alla morgna kl: 8:15. Mánudögum til fimmtudaga er kennsla til kl: 14:10 en á föstudögum til kl:11:55 og þá borða nemendur í hádeginu áður en þeir fara heim.
Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla eiga nemendur að jafnaði að fá 30 kennslustundir á viku í 1. – 4. bekk, nemendur 5. – 7. bekk 35 kennslustundir á viku og nemendur í 8. -10. bekk 37 stundir á viku. Á þessu skólaári eru 1.-7. bekkur að fá 33 kennslustundir á stundatöflu, einnig 8.-10. bekkur en að auki fara þau í þrjár Smiðjuhelgar yfir skólaárið, þar sem þau uppfylla kennslustundafjöldann.
Teymiskennsla og samkennsla árganga
Börnin í leikskóladeildinni eru ýmist saman í hóp eftir aldri eða í blönduðum aldurshópi, allt eftir þeim verkefnum sem eru í gangi. Elstu börnin í leikskóladeildinni byrja að fara upp í grunnskóla seinasta leikskóla árið sitt og fá þau að fara í kennslustundir í hverri viku til umsjónakennara í bóklegt nám. Á skólaárinu 2020-2021 fara elstu börnin einnig í sundkennslu einu sinni í viku þar til kólnar í veðri, eftir það fara elstu tveir árgangarnir í danskennslu hjá kennara einu sinni í viku. Elstu tveir árgangarnir fara í útinám með grunnskóladeildinni og í íþróttir með íþróttakennara. Hóparnir þeirra heita: Músahópur, Kisuhópur og Hundahópur.
Kennarar grunnskóladeildar eru með fasta samráðstíma þar sem þeir skipuleggja skólastarfið í sínum árgöngum og samstarf sín á milli. Teymisfundir grunnskóladeildar eru haldnir reglulega og þar funda t.d. íslenskuteymi, stærðfræðiteymi og útinámsteymi. Starfsmenn leikskóladeildar eru með reglulega samráðsfundi. Kennari í leikskóladeild og kennari í 1. bekk eru einnig með reglulega fundi til að halda utan um samvinnu og samfellu skólastigana.
Einstaklingsmiðaðir kennsluhættir
Einstaklingsmiðun felur í sér að skólinn kemur til móts við barnið á forsendum þess sjálfs en ekki skólans, hóps eða námsefnisins. Nemendum í grunnskóladeild eru sett skýr markmið í svokölluðum Vörðum sem er námskrá sem hvert og eitt barn á. Þær eru gerðar að vori og þar eru tilgreind helstu náms- og félagsleg markmið barnsins, sem unnið skal að í framhaldinu. Vörður eru endurskoðaðar svo oft sem þurfa þykir yfir veturinn og skulu vera virkt vinnuplagg nemanda og kennara.
Umsagnir eru áberandi auk þess sem leiðsagnarmat fær meira vægi, en í því geta nemendur verið virkir þátttakendur, metið sjálfir vinnu sína en fá einnig leiðbeinandi umsagnir sem styðja þá í náminu og nýtast þeim á ferð þeirra eftir menntaveginum sem öflugt veganesti.
Þar sem kennslan og þar með námsmatið er einstaklingsmiðað er samanburður á milli nemenda ómögulegur en samræmd próf Menntamálastofnunnar skila okkur upplýsingum um stöðu nemandans í samanburði við jafnaldra.