top of page

Hvað er einelti?

Einelti er endurtekið ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, þar sem einn eða fleiri níðast á öðrum, sem á erfitt með að verjast. Einelti getur birst í mörgum myndum þótt algengast sé að flokka það í tvo flokka, andlegt og líkamlegt.

 

Einelti getur verið:

 • Líkamlegt: barsmíðar, spörk, hrindingar eða skemmdarverk

 • Munnlegt: uppnefni, niðrandi athugasemdir og endurtekin stríðni

 • Skriflegt: tölvuskeyti, sms-skilaboð, bloggsíðuskrif, krot og bréfasendingar

 • Óbeint: baktal, útskúfun eða útilokun úr félagahópi

 • Efnislegt: eigum barnsins stolið eða þær eyðilagðar

 • Andlegt: þegar barnið er þvingað til að gera eitthvað sem stríðir algjörlega gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu.

 

Að þekkja einelti

 • Sá einstaklingur sem verður fyrir einelti eða ofbeldi segir oft ekki frá því heldur skammast sín og kennir sjálfum sér jafnvel um. Þess vegna er mjög áríðandi að allir þekki einkenni eineltis.

 

Hugsanlega er um einelti að ræða ef nemandinn:

 • er hræddur við að ganga einn í skólann eða heim

 • vill ekki fara í skólann

 • kvartar undan vanlíðan á morgnana

 • hættir að sinna náminu, einkunnir lækka

 • fer að koma heim með rifin föt og skemmdar námsbækur

 • byrjar að stama, missir sjálfstraustið

 • leikur sér ekki við önnur börn

 • neitar að segja frá hvað amar að

 • kemur heim með marbletti eða skrámur sem hann getur ekki útskýrt

 • verður árásargjarn og erfiður viðureignar

 • vill ekki taka þátt í félagsstörfum í skólanum.

 

 

Verði foreldrar / forráðamenn eða starfsmenn varir við einhver þessara einkenna eða önnur sem benda til að barninu líði illa er mikilvægt að kanna málið, hafa samband við kennara eða foreldra og e.t.v. foreldra / forráðamenn bekkjarfélaga barnsins.

bottom of page