Það er von okkar í Kerhólsskóla, að með aukinni áherslu á náttúrufræði og umhverfismennt vaxi úr grasi ungt fólk sem nýtur þess að stunda útivist og upplifa náttúruna um leið og það getur fjallað um og tekið gagnrýna afstöðu til umhverfismála, sjálfbærrar þróunar, nýtingar náttúruauðlinda og umhverfisverndar.
Börn og ungmenni eru alla jafna mjög forvitin og áhugasöm um hluti og fyrirbæri í umhverfinu. Það er því sjaldnast betra tækifæri en einmitt þá til þess að virkja áhuga þeirra, auka virðingu og ábyrgðartilfinningu til umhverfisins og samfélagsins sem þau lifa og hrærast í. Þetta tækifæri viljum við nýta sem best í Kerhólsskóla. Við erum vel í sveit sett, því skólinn er staðsettur í fallegu umhverfi, örstutt frá mörgum helstu náttúruperlum landsins, samfélagið er fjölbreytt og atvinnuhættir af ólíkum toga.
Útinám og vettvangsferðir, þar sem náttúran og umhverfið allt er notað sem námsvettvangur, auðgar og styrkir allt nám, auk þess að vera hollt fyrir líkama og sál. Þetta er líka vettvangur sem hentar mörgum betur en skólastofan og er því ákaflega mikilvægt að nýta sér hann til þess að styrkja þá sem þar eru á heimavelli. Auðvelt er í þessari kennslu að samþætta margar námsgreinar og er útinám því alls ekki einvörðungu bundið við náttúrufræði og umhverfismennt.
Í Kerhólsskóla höfum við þegar hafið ákveðna vinnu sem tengist umhverfisvernd og endurvinnslu. Við flokkum pappír, rafhlöður, lífrænt sorp, fernur og plast, í hart plast og mjúkt plast.
Það er von okkar, að með aukinni áherslu á náttúrufræði og umhverfismennt vaxi úr grasi ungt fólk sem nýtur þess að stunda útivist og upplifa náttúruna um leið og það getur fjallað um og tekið gagnrýna afstöðu til umhverfismála, sjálfbærrar þróunar, nýtingar náttúruauðlinda og umhverfisverndar.
Þróunarverkefnið; Til móts við náttúruna
Vinnan við þróunarverkefnið „ Til móts við náttúruna“ hófst haustið 2009 með vinnu starfshóps sem fjallaði um útiskóla og umhverfismennt. Verkefnisstjórn, frá því ágúst 2010, hefur verið í höndum Rögnu Björnsdóttur grunnskólakennara við Kerhólsskóla en ráðgjafi hefur verið Ingvar Sigurgeirsson prófessor við Menntavísindasvið H.Í. Hann hefur leiðbeint verkefnisstjóra og hugmyndir starfsmannahópsins hafa verið bornar undir hann. Þróunarverkefninu lauk formlega vorið 2012 og fékk þá skólinn Grænfánann afhentan í fyrsta sinn, vígði útilistaverk og fékk land frá sveitarfélaginu til ráðstöfunar fyrir skólaskóg.
Meginmarkmið verkefnisins „Til móts við náttúruna“ er að halda áfram að auka fjölbreyttni í námi og kennsluháttum með áherslu á umhverfismennt, list- og verkgreinar.
Verkefnið inniheldur eftirfarandi þætti:
1) Að nýta náttúruna til útináms og listsköpunar.
2) Að efla tengsl skólans við nærsamfélagið á sviði
umhverfismenntar og grenndarnáms.
3) Grænfánaskóli
Þó svo að formlegu þróunarverkefni skólans sé nú lokið mun vinna tengd þessum áherslum halda áfram um ókomna tíð. Sjá skýrslur um þróunarverkefnið hér.