Tónmál

Tónmál

 

Formáli

Tónmál er námsefni í tónlist og málörvun fyrir þriggja til fjögurra ára gömul börn. Hugmyndin að námsefninu kviknaði sumarið 2011 á ráðstefnu um tónlistarskynjun í Rochester í New York. Þar voru kynntar nýlegar rannsóknir sem sýndu langtímaáhrif tónlistarþjálfunar á heyrnræna skynjun. Vísbendingar um að tónlistarþjálfun breyti varanlega getu heilans til að greina málhljóð vöktu spurningar um hvað mætti gera með markvissri þjálfun tónlistar og málhljóða. Væri mögulegt að hefja slíka þjálfun áður en lestrarnám hæfist og þannig fækka þeim sem myndu glíma við lestrarörðuleika? 

 

Markmið

Nýlegar rannsóknir benda til þess að tónlistarþjálfun hafi marktæk áhrif á heyrnræna úrvinnslu, ekki aðeins tónlistar, heldur einnig málhljóða. Þar sem góð málhljóðagreining er undirstaða lestrarfærni og ung börn eru afar móttækileg fyrir þjálfun í gegnum tónlist, var ákveðið að þróa kennsluefni sem myndi þjálfa þriggja ára börn bæði í tónlist og málhljóðagreiningu og þannig byggja grunn sem myndir auðvelda lestrarnám áður en eiginlegt lestrarnám hæfist. Markmið með TónMáls-verkefninu var því að þróa kennsluefni í tónlist með áherslu á aukna forlestrarfærni þriggja til fjögurra ára barna.

Uppbygging  TónMáls-stunda

 

Hópastærð 

Í hóp eru 5-6 börn með einum kennara. 

Umgjörð

Allir sitja í hring í upphafi tímans, hvert barn á sinni mottu. Motturnar eru mikilvægar til að halda utan um hópinn og hjálpa börnunum að fylgja fyrirmælum í gegnum kennslustundirnar.

Form

Mikilvægt er að TónMáls-tímar fylgi alltaf sama formi, þannig að börnin læri fljótt hvernig tímarnir eru uppbyggðir. Þegar ákveðnir liðir hafa sinn fasta stað í kennslustundinni, skapast öryggi meðal barnanna og auðveldara verður að ná til þeirra. Aðrir þættir í TónMáls-kennslustund eru hafðir á svipuðum tíma á dagskránni en viðfangsefni innan hvers flokks getur verið breytilegt frá einni kennslustund til annarrar. Börn þurfa skýrar leiðbeiningar, þegar þau vita vel til hvers er ætlast af þeim, verða þau öruggari með sig og standa sig betur.

Upphaf og endir

TónMáls-tímar byrja og enda ávallt með sama hætti og þannig er kennslu-stundin römmuð inn. Byrjað er á því að syngja "Góðan daginn" og þar með nöfn allra barnanna í hópnum. Í lok hvers tíma er stafrófsmarsinn sunginn. Tilvalið er að ljúka stundinni með því að marsera með börnin út úr kennslurýminu yfir á sína deild eða sitt svæði.

Kerhólsskóli leik- og grunnskóli á Borg í Grímsnes- og Grafningshreppi 801 Selfoss