top of page

Skjálftinn hæfileikakeppni fyrir sunnlenska unglinga

Það verður mikið um dýrðir þegar Skjálftinn verður haldinn í fyrsta sinn í Þorlákshöfn 15. maí 2021. Um er að ræða hæfileikakeppni byggða á Skrekk sem Reykjavíkurborg hefur staðið fyrir og haldið í 30 ár fyrir ungmenni í sínum skólum með frábærum árangri.

Allir skólar í Árnessýslu fengu boð um að taka þátt í Skjálftanum og er óhætt að segja að skólastjórnendur þeirra hafi fagnað framtakinu enda löngu tímabært, eins og ein þeirra sagði.

Ása Berglind Hjálmarsdóttir, foreldri í Grunnskólanum í Þorlákshöfn og viðburðarhaldari, segist hafa hugsað það á hverju ári þegar öll þessi frábæru atriði verða til í kringum Skrekk, hversu sorglegt það væri að börn í öðrum skólum en í Reykjavík fengu ekki þetta sama tækifæri svo hún ákvað að gera eitthvað í því.

„Það var algjörlega frábært að fá þessi jákvæðu viðbrögð frá öllum skólastjórnendum þegar ég kynnti verkefnið fyrir þeim og ég er viss um að unglingar í skólum Árnessýslu eiga eftir að blómstra í Skjálftanum og við munum öll njóta góðs af því, vegna þess að menning skiptir hvert samfélag svo ofboðslega miklu máli. Þarna fá þau vettvang til að vinna með hæfileika sína, fara út fyrir rammann og sýna öllum hvað unglingar eru frábærir,” segir Ása Berglind.

Eins og áður sagði byggir Skjálftinn á hugmyndafræði Skrekks og hefur Ása fengið að nýta reynslu þeirra sem að honum standa í undirbúningsferlinu.

„Það skiptir öllu máli að Harpa Rut, sem hefur séð um Skrekk síðustu ár, sé svona stórkostlega jákvæð og viljug til að deila þeirra reynslu. Aðstandendur Skrekks fagna því að verkefnið breiðist út um landsbyggðina og vonandi verður það svo, að unglingar í öllum landshlutum fái þetta frábæra tækifæri. Eins og Harpa sagði að þá hefur Skrekkur núna eignast systkini sem heitir Skjálftinn og vonandi á fjölskyldan svo eftir að halda áfram að stækka”.

Skjálftinn hlaut hæsta styrk þegar SASS úthlutaði menningarstyrkjum í haust, eða 1.500.000 kr. og Sveitarfélagið Ölfus hefur einnig styrkt verkefnið um 500.000 kr. og skiptir það sköpum í framkvæmd verkefnisins sem er mjög kostnaðarsamt.

Ása segir að enn vanti aðeins upp á fjármögnun Skjálftans en að það sé í ferli og að áhugasamir aðilar eða fyrirtæki sem vilji styðja við verkefnið megi gjarnan hafa samband á sudurlands.skjalftinn@gmail.com

Hægt verður að fylgjast með framgangi verkefnisins á Facebook og Instagram undir "Skjálftinn".Ljósmyndir úr Skrekk: Anton Bjarni


Skjálftinn er fyrir nemendur 8. - 10. bekkja í Árnessýslu.

Comments


Nýlegar fréttir
Mánuðir 
bottom of page