Skólahald vegna nýrra reglugerða
Kæru foreldrar,
Viðbragðsteymi sveitarfélagsins fundaði í dag með skólastjórnendum vegna nýrrar reglugerðar um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar.
Í kjölfarið tók viðbragðsteymið ákvörðun í samráði við stjórnendur og starfsmenn skólans um að hafa starfsdaga í grunnskóladeild næstu tvo daga (þriðjudag 3. nóvember og miðvikudag 4. nóvember).
Talin er þörf á að hafa tvo starfsdaga til að skipuleggja og fara í breytingar á húsnæði til að tryggja grunnskólabörnum sem mesta viðveru í skólanum.
Stærstu breytingarnar sem þarf að gera er að víxla húsnæði frístundar og kennslustofu miðstigs.
Það er áætlað að þessar breytingar á kennsluaðstöðu munu standa út skólaárið en ráðist er í þessar miklu breytingar til að hægt sé auðveldlega að skipta skólanum upp í hólf þegar þess gerist þörf.
Hvorki sund eða íþróttir eru leyfðar og verða fundin önnur verkefni í þeim tímum.
Leikskóladeildin er nú þegar nánast í sérhólfi og því þarf ekki að fara í miklar breytingar þar og því ekki talin þörf á skipulagsdegi í leikskóladeild.
Með breytingunum er skólanum skipt alveg í 3 hólf.
1. Leikskóli
a. Með óbreyttu sniði.
b. Starfsmenn og börn borða í leikskólarýminu.
c. Foreldrar þurfa að vera með grímu þegar þau koma með börnin á morgnana og þegar börnin eru sótt.
d. Einungis er heimilt að annað foreldrið komi með og/eða sæki barn. Eldri systkini mega ekki koma inn í leikskóladeild.
2. Yngsta stig (1.-4. bekkur)
a. Ganga inn á sínum stað (grunnskólainngang).
b. Borða í mötuneyti.
c. Frístund færist upp í miðrými og miðsstigskennslustofu.
d. Þegar börnin eru sótt í frístund þá þurfa foreldrar að hringja í síma: 480-5599 / 893-6800 og þá verða börnin send niður í andyri/út.
3. Mið- og elstastig (5.-10. bekkur)
a. Ganga inn um frístundarforstofu (bókasafnsinngangur).
b. Borða í mötuneyti en ganga inn um aðalinngang Félagsheimilis.
c. Kennsluaðstaða miðstigs verður í frístundarrými.
Yngsta stig og mið-og elstastig munu ekki borða á sama tíma.
GRÍMUSKYLDA er í skólabílum hjá ÖLLUM börnum. Foreldrar eru beðnir um að tala við börnin um mikilvægi grímunotkunar í skólabílnum.
Fyrir hönd viðbragðsteymisins, Ingibjörg Harðardóttir, sveitarstjóri
Fyrir hönd Kerhólsskóla, Jóna Björg Jónsdóttir, skólastjóri
Commentaires