Nemandi Kerhólsskóla kjörin í ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna:
Ingibjörg Elka, nemandi á unglingasstigi, Kerhólsskóla, sem er einn af 12 fulltrúum Íslands í í ungmennaráð i Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Hún segir að Kerhólsskóli sé langbesti skólinn, sem hún hefur verið í. Ljósmynd/einkasafn
„Kerhólsskóli er langbestur“, segir Ingibjörg Elka
Ingibjörg Elka, nemandi á unglingastigi í Kerhólsskóla, sem býr á Kringlu II fékk þær fréttir nýlega að hún hafi verið kjörin í ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Ráðið er skipað 12 börnum á aldrinum 13 til 18 ára en krakkar allsstaðar af landinu sitja í ráðinu, sem vilja leggja sitt af mörkum til málefnisins. Framtíðin er sannarlega björt þegar raddir barna og ungmenna fá að heyrast í mikilvægum málaflokkum. Ingibjörg Elka svaraði nokkrum spurningum í tilefni af þessum tímamótum.
Hver eru helstu verkefni ráðsins og hvernig fer starfið fram?
„Við erum búin að hittast á tveimur fundum á Teams og erum að móta starfið okkar í vetur. Helstu verkefni ráðsins eru að vekja athygli á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og að rödd barna heyrist þar. Við erum eins og ég sagði að móta starfið og hvaða áherslur við viljum hafa í vetur. Þetta er á Íslandi, ungmennaráð Heimsmarkiða SÞ fyrir Ísland. Við munum funda með ríkisstjórn Íslands.
Ertu ekki stolt yfir því að hafa verið kjörinn í ráðið og í hvaða málum ætlar þú helst að beita þér fyrir?
Jú mjög stolt, mér finnst heiður að hafa verið valin úr svona stórum hópi barna. Ég vil leggja áherslu á markmið 17 um samvinnu, því án samvinnu allra þá munu markmiðin ekki nást. Rödd barna verður að vera tekin með í þessari samvinnu.“
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, hvaða markmið eru það helst og sem eru best áberandi?
„Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru alþjóðleg stefna um hvernig við viljum að heimurinn okkar líti út. Þau tóku við af Þúsaldarmarkmiðum SÞ árið 2015 og munu gilda til ársins 2030. Markmiðin eru 17 og ná yfir eiginlega allt sem okkur dettur í hug, allt frá því að útrýma hungri til umhverfismála og heilsu.“
Þú hefur mikinn áhuga á umhverfismálum og að láta gott af þér leiða. Hefur þú alltaf verið svona eða er þetta að koma meira og meira eftir að þú verður eldri eða?
„Mér finnst ég alltaf hafa verið svona, ég hef búið úti um allan heim og séð fátækt og hungur með eigin augum. Ég flutti til Afríku þegar ég var 4 ára og mér finnst það hafa haft mikil áhrif á hvernig ég sé heiminn.“
Svona að lokum, hver eru helstu áhugamál þín og hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðinn stór?
„Ég elska að föndra og skapa, skrifa og teikna. Auk þess sem ég hef mikinn áhuga á ljósmyndun og ferðalögum. Ég hef ekki hugmynd um hvað ég vil verða þegar ég er orðin stór. En eitt sem ég veit er að ég vil ekki sitja á skrifstofu allan daginn frá 8:00-16:00. Ég þarf fjölbreytt starf.“
Og eitt í viðbót, hvernig er að vera nemandi í Kerhólsskóla?
„Ég hef verið í nokkrum skólum og ég er ekki að segja þetta bara til að segja þetta en Kerhólsskóli er langbestur af þeim. Það er hugsað rosalega vel um okkur hérna og kennurunum er ekki sama um okkur. Við erum rosalega lítill og samheldinn hópur og erum öll góðir vinir,“ segir Ingibjörg Elka.
Viðtal: Magnús Hlynur
Comments