top of page

Grænfáni og heilsueflandi samfélag

Mánudaginn 14. september sl. skrifaði Ingibjörg Harðardóttir sveitarstjóri fyrir hönd Grímsnes- og Grafningshrepps undir samning með landlækni, Ölmu D. Möller, um að við vinnum að því að vera heilsueflandi samfélag. Um leið skrifuðu fulltrúar félagasamtaka undir samstarfssamning sem hljóðar upp á að hafa 1-2 viðburði á ári sem ekki aðeins nær til sinna félagsmanna heldur virkjar líka nærsamfélagið.

Félögin sem skrifuðu undir á mánudaginn eru: Kvenfélag Grímsneshrepps, Ungmennafélagið Hvöt, Lionsklúbburinn Skjaldbreiður, Sauðfjárræktarfélagið Barmur, Hjálparsveitin Tintron, Leikfélagið Borg og frá Sólheimum var það einnig Skátafélag Sólheima, Leikfélag Sólheima og Íþróttafélagið Gnýr.

Nemendur 2. bekkjar í Kerhólsskóla sungu þrjú lög við athöfnina en síðan fór Alma út til að hitta alla nemendur grunn- og leikskólans. Þar var skellt í eina skemmtilega mynd.

Miðvikudaginn 16. september sl. fengum við í Kerhólsskóla fjórða grænfánann okkar afhentan við hátíðlega athöfn. Grænfáninn er viðurkenning sem veitt er skólum sem vinna að menntun til sjálfbærni. Margrét Hugadóttir frá Landvernd heimsótti okkur, ræddi við krakkana og afhenti grænfánanefndinni fánann. Eftir afhendinguna fóru nemendurnir í „Fangaðu flaggið“ í útinámi og enduðu á að fá sér grænfánaköku í tilefni dagsins.


Nýlegar fréttir
Mánuðir 
bottom of page