Endurskinsmerki að gjöf
Félagar úr Hjálparsveitinni Tintron komu nýlega færandi hendi í Kerhólsskóla og færðu börnunum í grunnskólanum og leikskólanum endurskinsmerki að gjöf. Heimsóknin var hluti af árlegum forvarnarverkefnum sveitarinnar. Mikil ánægja var með framtakið og ekki síður höfðu nemendur gaman af því að skoða bíla sveitarinnar.
Eftirfarandi tilkynning kom nýlega fram í dagbók Lögreglunnar á Suðurlandi vegna endurskinsmerkja: „Lögreglumenn á Suðurlandi vilja hvetja íbúa í umdæminu til þess að auka notkun endurskinsmerkja. Á eftirlitsferðum sínum um varðsvæðið hafa lögreglumenn orðið þess áskynja að töluvert vantar upp á almenna notkun þeirra. Þetta á þó frekar við um þá sem eldri eru. Víða í umdæminu er lýsing við götur og vegi lítil. Því sjást gangandi vegfarendur illa í því myrki sem nú er bæði árdegis og síðdegis.“
Brunavarnir Árnessýslu komu einnig færandi hendi og voru endurskinsmerkjum dreift til grunnskólabarna Kerhólsskóla að auki fengu nemendur í 3.-4. bekk poka með alls kyns varningi í tengslum við eldvarnarátakið Loga og Glóð ásamt því að taka þátt í getraun um eldvarnir heimilanna.
Í bréfi frá Pétri Péturssyni slökkviliðsstjóra hjá Brunavörnum Árnessýslu segir: „Nú hefur skammdegið hafið innreið sína á landinu okkar góða og tími ljósanna er kominn einu sinni enn. Þetta er fallegur tími sem við ættum að njóta sem mest en honum fylgir ákveðin hætta í umferðinni. Okkur hjá Brunavörnum Árnessýslu er umhugað um öryggi og velferð okkar allra og ekki hvað síst barnanna í samfélaginu okkar sem eru á leið til og frá skóla, oft á tíðum í lélegu skyggni. Okkur langar því að gefa börnum á grunnskólaaldri í Árnessýslu endurskinsmerki að gjöf í þeirri von um að þau verði notuð til að auka öryggi þeirra í umferðinni.“
Nemendur í 1.-4. bekk munu hitta Brunavarnir á Teams samskiptaforriti á morgun, 15. desember, þar sem þau fá fræðslu um brunavarnir.
Við í Kerhólsskóla þökkum Hjálparsveitinni Tintron og Brunavörnum Árnessýslu kærlega fyrir gjafirnar.
Fyrir hönd Kerhólsskóla
Magnús Hlynur Hreiðarsson og Íris Gunnarsdóttir
Komentarze