top of page

Lambaferð leikskólans í Miðengi

Hunda og kisuhópur leikskólans fóru í lambaferð í Miðengi miðvikudaginn 27. maí, 16 börn og 7 starfsmenn. Guðni Reynir, bóndi tók á móti hópnum í fjárhúsinu og nautahúsinu en bændurnir Halldór og Sandra tóku á móti hópnum í hesthúsinu og í skemmunni þar sem farið í leiki. Að lokum var nesti borðað í kaffistofunni.

Ferðin tókst í alla staði mjög vel, móttökurnar frábærar og höfðu börnin og starfsmenn gaman af því að sjá nýfædd lömb, mæður þeirra, nautin, hesta og folöldin. Eitt naut vakti þó sérstaka athygli því það var ekki mjög hrifið af heimsókninni, baulaði mikið og losaði járn í stíunni sinni, sem það var að stanga. Allt fór þó vel, börnin höfðu gaman af uppátækinu og nautið sættist smátt og smátt við heimsóknina.

Sigríður Þorbjörnsdóttir, deildarstjóri leikskóladeildar tók meðfylgjandi myndir í ferðinni. Að lokum eru ábúendum í Miðengi þakkað kærlega fyrir góðar móttökur.

Nýlegar fréttir
Mánuðir 
bottom of page