top of page

Skóla- frístunda- og íþróttastarf barna og ungmenna eftir 4. maí

Tilkynnt hefur verið um afléttingu takmarkana á skólastarfi frá og með mánudeginum 4. maí nk. og nú hefur heilbrigðisráðuneyti birt auglýsingu þar sem nánar er fjallað um útfærslu þess og áhrif á mismunandi skólastig. Hér má sjá allt það helsta úr auglýsingunni. Þegar takmarkanir á skólahaldi falla úr gildi verður starf leik- og grunnskóla með hefðbundnum hætti og nemendur í framhalds- og háskólum mega á ný mæta í sínar skólabyggingar. Áfram verða almennar sóttvarnarráðstafanir í skólum, sem og annars staðar, og skólar fylgja viðbragðsáætlunum sínum varðandi mögulegt smit. Neyðarstigi almannavarna vegna COVID-19 er áfram í gildi.

• Leikskólar munu starfa með hefðbundnum hætti frá og með 4. maí nk. en þar verða áfram í gildi sóttvarnarráðstafanir sem snúa m.a. að hreinlæti og sótthreinsun og aðgengi utanaðkomandi að skólabyggingum. Mælst er til þess að skólar og foreldrafélög skipuleggi ekki fjölmennar samkomur og takmarki almennt gestakomur í skólana; þetta á til dæmis um útskriftir, sveitaferðir, sumarhátíðir og slíkt. Um samkomur gildir að fullorðnir verða að virða fjöldatakmarkanir (ekki fleiri en 50 í sama rými) og halda 2 metra fjarlægð sín í milli. Samkomur á vegum skóla geta farið fram utan hans en án fullorðinna gesta. • Grunnskólar munu starfa með hefðbundnum hætti frá og með 4. maí nk. en þar verða áfram í gildi sóttvarnarráðstafanir sem snúa m.a. að hreinlæti og sótthreinsun. Fjöldatakmarkanir í nemendahópum verða ekki lengur í gildi og nemendur geta notað sameiginleg svæði, s.s. útisvæði og mötuneyti óhindrað. Fjöldatakmarkanir gilda þó um fullorðna sem starfa í leik- og grunnskólum, þ.e. 2 metra fjarlægð og hámarksfjöldi fullorðinna einstaklinga er 50 í hverju rými. Mælst er til þess að skólar og foreldrafélög skipuleggi ekki fjölmennar samkomur út þetta skólaár og takmarki almennt gestakomur í skólana. • Frístundastarf og starf félagsmiðstöðva kemst í hefðbundið horf á ný en gætt verður að almennum sóttvarnarráðstöfunum þar sem annars staðar. • Íþrótta- og sundkennsla barna og ungmenna verður með hefðbundnum hætti, bæði út og inni. • Æfingar og keppnir í skipulögðu íþróttastarfi barna og ungmenna (yngri en 16 ára) eru heimilar án áhorfenda eftir 4. maí, hvort heldur utan- eða innanhúss en 2 metra nándarreglan skal virt eins og kostur er.

Skólastarf mun því hefjast í Kerhólsskóla með eðlilegum hætti frá 4. maí 2020 enda mikil tilhlökkun hjá nemendum og starfsfólki að hittast öll aftur í skólanum.

Nýlegar fréttir
Mánuðir 
bottom of page