top of page

Fróðleg heimsókn í leikskólann Rauðhól

Starfsmenn leikskóladeildar brugðu sér til Reykjavíkur á starfsdegi skólans 3. febrúar og heimsóttu þar leikskólann Rauðhól, sem vinnur eftir hugmyndafræðinni um flæði. Heimsóknin tókst einstaklega vel og var fróðleg og skemmtileg. Rauðhóll er 10 deilda leikskóli með pláss fyrir 206 börn og á honum starfa yfir 50 starfsmenn. Starfstöðvar leikskólans eru þrjár. Á heimasíðu skólans kemur m.a. fram að Mihaly Csiksentmihalyi setti fram hugmyndafræði um flæði og bjó til hugtakið flæði (e. flow), enda kallaður faðir flæðis. Samkvæmt kenningum Mihaly er flæði þær stundir þegar við njótum okkar best. Einstaklingurinn er svo niðursokkinn í athöfn að ekkert annað kemst að, verkefnið á hug hans allan og hann gleymir jafnvel stund og stað. Hlutirnir virðast gerast án áreynslu og hæfileikar hans eru fullnýttir. Reynslan sem einstaklingurinn öðlast í þessu ferli er svo gefandi að hann leggur töluvert á sig til að upplifa hana aftur. Hægt er að skapa aðstæður eða ástand þar sem líklegra er að einstaklingur geti upplifað flæði, en þá má verkefnið sem hann tekur sér fyrir hendur hvorki vera of létt né of erfitt. Þannig viðheldur það áhuga hans. Mikilvægt er að hafa skýr markmið vilji maður ná fram flæði. Ekki vegna þess að það eitt og sér að ná markmiðum sé mikilvægt heldur vegna þess að án markmiða reynist mörgum erfitt að einbeita sér og forðast truflanir.

Allar nánari upplýsingar um leikskólann Rauðhól og starfsemi hans er að finna á heimasíðunni; https://raudhollinn.is/

Myndin sem fylgir fréttinni er af forsíðu heimasíðunnar.

Fyrir hönd Kerhólsskóla

Veiga Dögg og Magnús Hlynur

Nýlegar fréttir
Mánuðir 
bottom of page