top of page

Skemmtilegur bóndadagur og góður þorramatur

Nemendur og starfsmenn skólans héldu upp á bóndadaginn föstudaginn 24. janúar saman. Margir mættu í lopapeysum í skólann og svo var spiluð félagsvist og þorralög sungin. Hápunktur dagsins var þorramaturinn í hádeginu þar sem boðið var upp á glæsilegt hlaðborð en þar var meðal annars hægt að fá hangikjöt, súra hrútspunga, sviðasultu, harðfisk, hákarl og fleira og fleira. Látið var vel af matnum og gengu allir saddir frá borðum. Þorrinn hefst alltaf á föstudegi á bilinu 19.–26. janúar og lýkur á laugardegi áður en góa tekur við en sá laugardagur er nefndur þorraþræll. Meðfylgjandi myndir voru teknar í þorramatnum.

Andrés Terry Nilsen, matreiðslumeistari sá um að undirbúa þorramatinn og bera hann fram með sínu fólki. Þetta var jafnframt síðasti dagur Terrys í mötuneytinu eftir þriggja ára starf.

Krakkarnir tóku vel til matar síns í þorramatnum þó ekki hafi allir verið hrifnir af súramatnum.

Það var gaman að sjá hvað margir nemendur mættu í lopapeysu á bóndadaginn í skólann.

Fyrir hönd Kerhólsskóla

Veiga Dögg og Magnús Hlynur

Nýlegar fréttir
Mánuðir 
bottom of page