Heimasíða Grímsnes- og Grafningshrepps

Viðburðir

febrúar 2018
Sunnudagur Mánudagur Þriðjudagur Miðvikudagur Fimmtudagur Föstudagur Laugardagur
28. janúar 2018 29. janúar 2018 30. janúar 2018 31. janúar 2018 1. febrúar 2018 2. febrúar 2018 3. febrúar 2018
4. febrúar 2018 5. febrúar 2018 6. febrúar 2018 7. febrúar 2018 8. febrúar 2018 9. febrúar 2018 10. febrúar 2018
11. febrúar 2018 12. febrúar 2018 13. febrúar 2018 14. febrúar 2018 15. febrúar 2018 16. febrúar 2018 17. febrúar 2018
18. febrúar 2018 19. febrúar 2018 20. febrúar 2018 21. febrúar 2018 22. febrúar 2018 23. febrúar 2018 24. febrúar 2018
25. febrúar 2018 26. febrúar 2018 27. febrúar 2018 28. febrúar 2018 1. mars 2018 2. mars 2018 3. mars 2018

Námsmat

Til þess að nálgast nemandann þar sem hann er staddur er námsmat mjög mikilvægt. Í Kerhólsskóla notum við námsmat til þess að kynnast nemandanum og kanna stöðu hans. Þegar hún er ljós er hægt að setja markmiðin og áætla leiðir að þeim.

Kennari notar símat iðulega til þess að meta stöðu nemandans jafnt og þétt, svo hann megi mæta þörfum hans sem best. Viðfangsefni nemandans byggjast á því námsmati sem fer fram en það getur verið með ýmsu móti s.s. formlegt (dæmi um slíkt eru próf og kannanir) eða falist í samtölum við nemanda, sjálfsmati eða mati á vinnuferli og vinnuframlagi.

Í skóla sem kennir sig við einstaklingsmiðun eru leiðir nemenda misjafnar og forsendur þeirra sömuleiðis. Námsmatið skal ætíð endurspegla það hvað er kennt og hvernig það er kennt. Því er námsmatið einstaklingsbundið og fjölbreytilegt. Sjálfsmat er mikilvægur hluti námsmatsins því með því að nemendur læri að meta vinnu sína, gæði hennar og framlag sitt. Þannig gera þeir sér betur grein fyrir því að þeir eru í raun drifkrafturinn í þeirra eigin námi.

Einkunnir vega minna en áður en umsagnir eru áberandi auk þess sem leiðsagnarmat fær meira vægi, en í því geta nemendur verið virkir þátttakendur, metið sjálfir vinnu sína en fá einnig leiðbeinandi umsagnir sem styðja þá í náminu og nýtast þeim á ferð þeirra eftir menntaveginum sem öflugt veganesti.

Þar sem kennslan og námsmatið er einstaklingsmiðað er samanburður á milli nemenda ómögulegur en stöðluð próf Námsmatsstofnunar skila okkur upplýsingum um stöðu nemandans í samanburði við jafnaldra.

Nemendur fá námsmatsmöppurnar heim a.m.k. tveimur dögum áður en samtal nemenda, foreldra og kennara fer fram svo hægt sé að kynna sér námsmatið gaumgæfilega. Vörðurnar sem eru unnar að vorin fara heim að hausti til kynningar og umræðna heima fyrir. Möppurnar eru teknar með í samtalið í skólanum.

Mikilvægt er að kynna sér námsmatið vel.

Á annaskilum 2 og 3, fá nemendur heim með sér matsblað þar sem þeir leggja mat á ýmsa þætti skólastarfsins og fá þar tækifæri til þess að koma athugasemdum sínum á framfæri en ekki hvað síst skapast með þessu mati kærkomið tækifæri foreldra og barns að ræða um starf barnsins í skólanum og hafa áhrif á skólagönguna. Þessi matsblöð eru í þróun, eins og námsmatið allt. Veturinn 2008—2009 fékk starfslið skólans styrk til þessa þróunarverkefnis sem fékk nafnið; Námsmat í Einstaklingsmiðuðum kennsluháttum. Gefin var út skýrsla um verkefnið sem Ingveldur Eiríksdóttir tók saman ásamt fleira efni tengdu námsmati. Þróun námsmatsins heldur áfram og er í raun ferð án upphafs eða endis.

Námsárinu í Kerhólsskóla er skipt í þrjár annir og hver önn á sér sínar áherslur í námsmatinu.

Haustönn: Nemendur fá sendar Vörðurnar sínar heim að hausti og kynna sér þær með forráðamönnum sínum. Á haustsamtalsdögum hittast foreldrar, nemandi og kennari og fara yfir athugasemdir sem gerðar hafa verið, kynna sér sýn hvers um sig og móta næstu skref. Nokkur undirbúningur er nauðsynlegur heima fyrir, fyrir þessa daga og gefa þarf sér góðan tíma vegna samtalsins. Á annaskilum að hausti er það námsmat sem unnið hefur verið sent heim til kynningar og umsjónarkennarar funda með nemendum sínum, einstaklingslega.

Miðönn: Á þessari önn er lögð áhersla á formlegt námsmat hvort sem það er gert með sérstökum prófum eða könnunum eða á annan þann hátt sem kennari telur best henta. Nemendur meta hvernig hefur gengið að vinna eftir þeim atriðum sem mótuð voru í Vörðum.

Vorönn: Námsmat þessarar annar er samantekt á vetrinum bæði af hálfu kennara en ekki síður nemenda. Nemendur fá vormatsblað með sér heim og meta hvernig þeir telja að markmið þau sem sett voru í t.d. Vörðum og á matsblaði frá því í haust hafi náðst.

Námsmat skólans byggir á þessum áherslum þar sem lögð er áhersla á einstaklingsmiðaða kennsluhætti þar sem hver og einn nemandi er í fyrirrúmi og áhugi hans og styrkleikar fái sem best notið sín. Síðustu ár hefur skólinn lagt áherslu á að aðlaga námsmatið að þessum áherslum.

Námsmat skólans er um margt frábrugðið því sem þekkst hefur í áranna rás en markmið okkar sem störfum við skólann er að það endurspegli sem best starfið sem fer fram í skólanum en ekki síður að í því fáist heildstæð mynd af eiganda þess, styrkleikum hans og áherslum í náminu. Námsmat hvers skóla er í sífelldri þróun og því eru allar ábendingar frá foreldrum og nemendum vel þegnar. Námsmatið á að styðja við nám barnsins og sýna sem besta mynd af námi þess.

Leiðsagnarmat

Námsmat skólans er æ meir að færast frá hinu hefðbundna/formlega námsmati sem lengi hefur þekkst í íslenskum skólum þar sem próf skipa stóran sess og oft er um lokamat að ræða – þ.e. þegar áfanganum er lokið fær nemandi eina einkunn e.t.v. með staðlaðri umsögn en getur lítið nýtt sér þá niðurstöðu til þess að bæta sig í þeim þáttum sem voru til prófs. Í stað prófa og lokamats er áherslan nú óðum að færast yfir á leiðsagnarmat sem byggir á því að nemandi viti til hvers er ætlast af honum, hann þekki markmið sín og viti hvert beri að stefna. Lykilatriði í því að virkja nemandann í námi sínu er að gefa honum stöðuga endurgjöf á námsferlinu, láta hann leggja mat á hvernig honum gengur og veita honum leiðbeinandi námsmat þar sem vinna hans nýtist honum í framhaldinu til þess að bæta árangur sinn. Rannsóknir sýna að með því að auka hlut nemenda í námsmati, virkja þá í samtölum um námið og veita þeim tíða endurgjöf má auka áhuga þeirra á náminu, auka virkni þeirra og auka þeim ábyrgð á eigin námi. Þannig aukast gæði skólastarfsins.

En oft á tíðum er námsmat flókið í skóla sem okkar vegna þess að áherslur nemenda eru misjafnar og forsendur þeirra sömuleiðis. Ekki er sanngjarnt að nemendur læri á sínum forsendum en séu metnir út frá hópnum eða með þeim tækjum sem þeim eru ókunnugleg, og því er námsmatið einstaklingsbundið og fjölbreytilegt en þó ætíð í anda þeirra kennsluhátta sem notaðir eru. Með því að beita umsögnum sem tengjast vel útlistuðum námsmarkmiðum, sem nemanda eru ljós í upphafi námsferils, má bregðast við þeim fjölbreytileika sem ríkir í skólanum okkar.